Svo virðist sem veitingamenn í betri veitingahúsum telji sig ekki fá lengur lambakjöt af þeim gæðum, sem þeir nutu fyrir einum eða tveim áratugum. Um það vitnar bréf tveggja matreiðslumeistara í Reykjavík til allra afurðastöðva og til þeirra samtaka bænda, sem málið varða.
Kvartað er yfir því að lambakjötið sé í sumum tilfellum seigt, morkið og bragðlítið þrátt fyrir fagmannlega meðhöndlun fyrir eldun. Þetta er í bréfinu meðal annars rakið til rangrar meðferðar sláturfjár, hraðrar kælingar eftir aflífun og stuttan kælitíma fyrir frystingu.
Í tilefni af þessu vill Austurlamb taka fram að frá upphafi hafa gæði lambakjötsins frá okkur verið tryggð. Svo er fyrir að þakka ágætu samstarfi við sláturleyfishafa, sem góðfúslega hafa látið í té þá þjónustu, sem færir viðskiptavinum okkar hámarksgæði.
Enda hafa Austurlambi engar kvartanir borist vegna lakra bragðgæða allt frá því að starfsemin hófst fyrir 8 árum. Sakar heldur ekki að minna enn einu sinni á að í hvert skipti sem hráefni frá Austurlambi hefur verið notað í kokkakeppni, hefur viðkomandi matriðslumaður fengið 1. verðlaun.